Um Pastel

Pastel ritröð er vettvangur mjög ólíkra listamanna að norðan og sunnan, til listsköpunar og sameiginlegs viðburðarhalds. Pastel vinnur að kynningu á bókverkagerð sem listformi og virkar til tengslamyndunar nýgræðinga og reynslubolta í skapandi geiranum. Hér geta reyndari listamenn farið út fyrir sinn eigin ramma eða hliðrað vinnslurammanum til og reynt nýtt.

Pastelritin eru listaverk í ritaformi. Verkin eru hvert og eitt ólík blanda myndefnis og texta, sum meira af einu en öðru. Ritin eru fíngerð, vandræðalaus og innihaldsrík. Útlitslega séð skapa þau litríka og glaðlega, en fyrirferðalitla heild á hillu heimilis eða vinnustaðar. Þau falla einkar vel inn í hvers konar hversdagslegt umhverfi og fara vel í jakkavasa, þannig að hægt er að grípa í þau inná milli annarra verka. Eða jafnvel taka þau með í útileguna. Hugsanlega gera þau sig jafnvel einna best í fjallgöngu og smellpassa í hliðarvasa bakpokans, án þess þó að íþyngja göngumanni. Hönnun og umbrot er í höndum Júlíu Runólfsdóttur.

Pastelritin eru hvert á sinn hátt skýrar og hnitmiðaðar skráningar á upplifunum, skynjunum og túlkunum viðkomandi höfundar á margræðum og síbreytilegum samtíma okkar. Hér birtast okkur ljósmyndir, myndbrot, teikningar, dagbókarbrot, frjálslegri prósar, formfastur ljóðabálkur, smásögur, örleikrit, skáldsaga - allt eftir því um hvaða verk er að ræða. Fyrirmyndir okkar eru fundagerðir sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu frá miðri seinustu öld.

Í þeim sama anda, þá finnst okkur fátt ánægjulegra en einmitt að lesa eða fremja verkin fyrir hóp fólks yfir morgunverðinum eða í heita pottinum í sundi, hvarvetna þar sem fólk er við venjubundnar athafnir. Við komum auðvitað líka mjög gjarnan fram á formlega skipulögðum menningarvettvangi.